Innlent

Hömlur á innflutningi neyðarsenda

Mynd/Freyr Ingi
Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu hefur gengið illa að festa kaup á fullkomnum neyðarsendum þar sem hömlur eru á innflutningi þeirra. Sendarnir geta nýst ferðamönnum á hálendinu og eru öruggari en þeir sem hafa verið í umræðunni undanförnu að mati félagsins.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 á mánudag lagði Ólína Þorvarðardóttir alþingiskona til að bílaleigur hefðu litla neyðarsenda til boða fyrir ferðamenn. Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Landsbjörgu segir þá senda ekki nægilega örugga.

„Þessi SPOT tæki eru ekki neyðarsendar eða við skilgreinum þá ekki sem neyðarsenda hérna hjá Landsbjörgu, þau eru meira svona feril tæki. Það er hægt að senda neyðarboð með þeim en það er ekki tryggt að þau komist á leiðarenda. Neyðarsendar eru sambærilegir því sem er í skipum og flugvélum og það er alþjóðlegt björgunarfyrirtæki sem heldur utan um og það er alveg eins öruggt og hægt er að hafa tæki í dag."

Fá slík tæki eru þó í umferð hér á landi, en Jónas segir hömlur vera á innflutningi þeirra. „Erlendis geturðu keypt þessi tæki, í Írak, Íran, Bandaríkjunum, Rússlandi og miklu miklu víðar. Þú skráir þau inn á heimasíðu hjá þessu björgunarfyrirtæki í björgunarkerfið og getur svo notað þau. Hérna þarf að fá sérstök leyfi hjá Póst og fjarskiptastofnun fyrir innflutningi og það hefur ekki gengið alveg nægilega vel hjá okkur að fá leyfi fyrir því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×