Innlent

Stjórnarandstaðan ætlar að skrópa við atkvæðagreiðslu á morgun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segist ekki ætla að mæta við atkvæðagreiðsluna ef hann veit ekki hvað hann á að greiða atkvæði um.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segist ekki ætla að mæta við atkvæðagreiðsluna ef hann veit ekki hvað hann á að greiða atkvæði um. mynd/ anton.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar ætla margir hverjir að skrópa á þingfundi sem forseti Alþingis hefur boðað til klukkan tíu í fyrramálið. Þá fer fram atkvæðagreiðsla um fjáraukalög þessa árs.

Til stóð að greiða atkvæði um fjáraukalögin í kvöld en þingmenn stjórnarandstöðunnar gengu af fundi. Með þessu vilja þeir mótmæla að hafa ekki fengið nauðsynleg gögn í hendurnar. Þar á meðal gögn um sölu á hlut ríkisins í Byr og SpKef.

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, segir að fundartíminn hafi verið ákveðinn án samráðs við framsóknarmenn og einhverjir þingmenn muni örugglega ekki mæta og mótmæla þannig vinnubrögðum meirihlutans. Hann leggur áherslu á að hann geti þó ekki talað fyrir hönd allra þingmanna Framsóknarflokksins.

„Ég verð á þingflokksformannafundi og ef það kemur ekkert nýtt fram um fjáraukalögin að þá náttúrlega bara mætir maður ekki á þingfund til að greiða atkvæði um eitthvað sem maður veit ekki hvað er," segir Þór Saari í Hreyfingunni.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við fréttavef Morgunblaðsins að þingmenn flokksins myndu ekki mæta. Þeir yrðu uppteknir við annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×