Innlent

Dæmd fyrir stórfelldan fjárdrátt hjá fasteignasölu

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness.
Kona á fertugsaldri var dæmd í morgun í Héraðsdómi Reykjaness fyrir stórfelldan fjárdrátt.

Konan starfaði sem bókari og gjaldkeri, hjá fasteignasölunni Hraunhamri í Hafnarfirði, og dró sér á árunum 2007 og 2008 fjármuni og önnur verðmæti frá félaginu, alls rúmlega sex milljónir króna.

Konan tók út vörur, samtals að verðmæti 905.239 krónur, í 24 skipti í heimildarleysi, leysti út í nafni Hraunhamars og nýtti í eigin þágu. Meðal annars keypti hún sjónvarp, tölvu og myndavél.

Þá var hún dæmd fyrir að greitt seljanda fasteignar, sem konan hafði sjálf fest kaup á, fyrir milligöngu Hraunhamars, þrjár milljónir króna af bankareikningi fasteignasölunnar, sem greiðslu vegna afhendingar fasteignarinnar. Konan hafði áður aðeins lagt tvær milljónir inn á reikning Hraunhamars.

Hún dró sér einnig tæplega 4,5 milljónir króna með því að gefa út tékka af bankareikningum Hraunhamars. Að lokum dró hún sér ríflega 200 þúsund frá starfsmannafélagi fasteignasölunnar.

Konan játaði brot sín skýlaust og var það virt henni til málsbóta. Þá kemur fram í dóminum að aðstæður hennar séu ekki til refsilækkunar, en hún greindi frá erfiðleikum í æsku og erfiðu heimilislíf undanfarin ár.

Að auki sagði konan að hún hefði ekki ein hagnast af brotunum heldur hafi félag sem eiginmaður hennar átti og starfsfélagi hans notið ágóða af þeim, en ekki með vitund þeirra.

Málið hafði mikil áhrif á hana að eigin sögn, en hún er meðal annars flutt úr landi.

Konan hlaut sex mánaða skilorðsbundin fangelsisdóm. Haldi hún skilorð í þrjú ár fellur refsing niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×