Innlent

Fjalladrottning Björns féll í klettum - nauðsynlegt að skjóta hana

Gangnamenn segja að um líknardráp hafi verið að ræða þegar þeir skutu uppáhalds ær Björns Bjarnasonar fyrrverandi dómsmálaráðherra á færi á afrétti nýverið.

Ærin sem hét Fjalladrottningin og hefur áður komið í sviðsljós fjölmiðla, meðal annars fyrir að nást ekki af fjalli, og svo fyrir að hafa skilað sér í hús undan gosinu í Eyjafjallajökli.

Björn segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að leitarmennirnir hafi skotið Fjalladrottninguna án vitneskju sinnar og hann hafi ekki frétt af verknaðinum fyrr en nokkru síðar. Þá hafi hann ekki fengið neinar skýringar á því af hverju ærin var skotin. Tvö lömb hennar fengu að lifa.

Að sögn gangnamannsins, sem fréttastofan ræddi við, sáu þeir hana ásamt tveimur lömbum við eftirleit en hún komst undan yfir tvö gil, uns lömbin staðnæmdust en hún hrapaði niður á syllu í Bleiksárgljúfri og fótbrotnaði.

Engin leið var fyrir gangnamenn að koma henni til hjálpar þannig að þeir skutu hana á færi fremur en að láta hana kvelajst til dauða á syllunni. Björn segir á síðu sinni að ærin hafi greinilega verið forystuær. Hún lét aldrei ná sér þegar smalað var en skilaði sér til byggða ef harðnaði á dalnum uppi á hálendinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×