Fótbolti

Cruyff um komu van Gaal til Ajax: Þeir hljóta að vera galnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Johan Cruyff.
Johan Cruyff. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ajax-goðsögnin Johan Cruyff og verðandi framkvæmdastjóri hollenska félagsins Louis van Gaal eru langt frá því að vera miklir félagar og það stóð ekki á viðbrögðum frá Cruyff þegar hann frétti af ráðningu Louis van Gaal.

Johan Cruyff er stjórnarmaður hjá Ajax og lagðist gegn ráðningu Louis van Gaal sem tekur við starfinu í júlí á næsta ári. Louis van Gaal stýrði áður þýska stórliðinu Bayern München en var látinn fara í lok síðasta tímabils.

Cruyff var spurður út í ráðningu van Gaal í hollenskum sjónvarpsþætti í gær. „Þeir hljóta að vera galnir," svaraði Johan Cruyff enda ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum.  Van Gaal hafði áður sagt að hann kæmi aldrei aftur til Ajax á meðan Cruyff væri þar.

Ajax vann Meistaradeildina undir stjórn Louis van Gaal árið 1995. Hann á það sameiginlegt með Cruyff að hafa þjálfað Barcelona en Barva varð tvisvar spænskur meistari undir hans stjórn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×