Innlent

Allt logar fyrir norðan vegna dóms í mannslátsmáli

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Allt samfélagið fyrir norðan logar skilst mér," segir Ingvar Örn Gíslason, sonur manns sem lést þegar ekið var á hann fyrir fáeinum mánuðum. Ökumaður bílsins var fyrir fáeinum dögum dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og sviptur ökuleyfi í fjögur ár.

Auk þess að hafa banað manninum af gáleysi var ökumaðurinn fundinn sekur um að hafa neytt fíkniefna og fyrir að hafa haft vopn undir höndum. Ingvar er ósáttur við dóminn. „Þetta er svekkjandi í sjálfu sér. Mér finnst þetta í rauninni skammarlega lítill og stuttur dómur," sagði Ingvar Örn í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Ingvar segist hafa verið í sambandi við lögfræðinga vegna málsins og þeir séu undrandi því refsiramminn fyrir manndrápið sé sex ár.

Ingvar segir að boltinn sé nú hjá saksóknara. „Ég vil trúa því að saksóknari sjái þann sóma í sér að áfrýja þessu máli, en boltinn liggur hjá honum," segir Ingvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×