Innlent

Segir reglurnar eins og menn vilji ekkert fiskeldi á Íslandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Reglur um fiskeldi á Íslandi eru svo fráhrindandi að það er eins og menn vilji ekkert fiskeldi. Þetta segir maður með reynslu frá Noregi sem vill hefja laxeldi á Vestfjörðum.

Vestfirðingurinn Matthías Garðarsson, sem hóf að ala fisk í Noregi fyrir aldarfjórðungi, hefur síðustu þrjú ár í gegnum félagið Arnarlax undirbúið laxeldi í Arnarfirði en rekist á veggi. Hann segir að þeir sem sömdu íslensku reglurnar hafi að minnsta kosti ekki spurt hvernig ætti að gera þetta í Noregi, - reglurnar séu eins og menn ætlist til þess að það verði ekkert fiskeldi á Íslandi.

Matthías, sem er stjórnarformaður og aðaleigandi Salmus í Leirfirði, hvetur íslensk stjórnvöld til að endurskoða reglurnar. Aðlaga verði þær aðstæðum og framtíðinni svo hægt sé að byggja upp iðnað og vill að Íslendingar taki Norðmenn sér til fyrirmyndar. Ef reglurnar væru eins og þær eru í Noregi væri hægt að gera þetta á einfaldan hátt, segir Matthías.

Markmið hans er 50 til 60 manna matvælaiðja á Bíldudal sem framleiði laxarétti í neytendaumbúðum, samskonar fyrirtæki og hann byggði upp í Leirfirði í Noregi. Matthías rifjar upp að þegar hann var að alast upp á Bíldudal hafi búið þar 400-500 manns en nú séu íbúarnir innan við 200. Hann kveðst sannfærður um að hægt sé að ala upp lax í Arnarfirði og byggja á grunni þess öflugt fyrirtæki en forsendan sé að leyfi fáist frá stjórnvöldum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×