Innlent

Hjólastóllinn kominn í leitirnar

Erla Hlynsdóttir skrifar
Mynd/Stefán
Fatlaður maður sem varð fyrir því að hjólastóllinn hans var fjarlægður á meðan hann var í göngutúr með aðstoðarmanni sínum, fær stólinn sinn aftur í dag. Móðir mannsins telur að þarna hafi verið á ferðinni einstaklingur með brenglað skopskyn.

Dóra Bjarnason prófessor sagði frá því í Fréttablaðinu í morgun að fatlaður sonur hennar, Benedikt Hákon Bjarnason, hafi orðið fyrir því að hjólastóll hans hvarf í Elliðaárdalnum í á þriðjudag. Síðan þá hefur Benedikt verið í hjólastól sem hann fékk að láni.

Eftir frétt Fréttablaðsins hefur síminn hins vegar ekki stoppað hjá Dóru og er stóllinn kominn í leitirnar. „Ég er bara alveg óskaplega glöð og þakklát, ég er full þakklætis vegna þess að samborgarar hafa tekið eftir þessu. Þau sáu stólinn og létu lögeglu vita, lögreglan sótti hann og við sækjum stólinn á eftir," segir hún.

Hjón á kvöldgöngu fundu stólinn

Það voru hjón á kvöldgöngu sem fundu yfirgefinn hjólastól í Elliðaárdalnum og létu lögreglu vita. Dóru finnst afar undarlegt að nokkur maður láti sér detta í hug að fjarlægja hjólastól.

„Ég bara varð alveg óskaplega hissa. Mér finnst eiginlega alveg óskiljanlegt að maður með einhverja hugsun í höfðinu geri svoleiðis. Ég held að þetta hafi kannski bara verið eitthvað flipp, einhver með heldur brenglað skopskyn farið eitthvað af stað með stólinn og skilið hann svo eftir."

Dóra og sonur hennar eru afar ánægð, þrátt fyrir þessa óskemmtilegu reynslu. „Mér finnst gott eftir allt sem hefur gengið á í þessu samfélagi að það sé til fólk sem lætur sig svona varða."

Þannig að þetta er saga sem sendar vel?

„Þetta er sko saga sem endar vel. Alveg ótrúlega vel."




Tengdar fréttir

Hjólastólnum stolið af fötluðum manni

„Ég er orðin svo gömul að ég er nánast alveg hætt að verða hissa yfir nokkrum hlut, en ég er mjög hissa yfir þessu. Ég trúi þessu eiginlega ekki,“ segir Dóra Bjarnason prófessor. Fatlaður sonur Dóru, Benedikt Hákon Bjarnason, varð fyrir því að hjólastól hans var stolið meðan hann brá sér í göngutúr með aðstoðarkonu sinni síðastliðinn þriðjudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×