Fótbolti

Íslandsbaninn ekki með Norðmönnum á móti Kýpur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohammed Abdellaoue fagnar sigrinum á Íslandi.
Mohammed Abdellaoue fagnar sigrinum á Íslandi. Mynd/AP
Mohammed Abdellaoue, framherji Hannover og norska landsliðsins, verður ekki með liðinu á móti Kýpur í undankeppni EM á þriðjudaginn kemur. Moa eins og hann er jafnan kallaður tryggði norska landsliðinu mikilvægan 1-0 sigur á Íslandi á dögunum. Norðmenn eru í mikilli baráttu við Portúgali og Dani um sæti í úrslitakeppni EM á næsta ári.

Mohammed Abdellaoue og liðsfélagi hans í Hannover og norska landsliðinu, Henning Hauger, eru báðir meiddir en Norðmenn treystu þó ekki niðurstöðu lækna þýska liðsins og kölluðu þá því í rannsókn til Noregs.

Læknir norska landsliðsins komst þó að sömu niðurstöðu, Moa er meiddur á nára og Henning Hauger er tognaður á vöðva. Hauger er miðjumaður sem er á sínu fyrsta ári með Hannover en hann lék áður með Stabæk í átta ár.

Mohammed Abdellaoue var sjóðandi heitur á tímabilinu áður en hann meiddist enda búinn að skora 6 mörk í 5 deildarleikjum með Hannover, 10 mörk í 10 leikjum í öllum keppnum og síðan þrjú mörk í þremur landsleikjum með Noregi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×