Fótbolti

Undankeppni HM hafin í Suður-Ameríku - Higuain með þrennu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gonzalo Higuain og Lionel Messi fagna í gær.
Gonzalo Higuain og Lionel Messi fagna í gær.
Fjórir fyrstu leikirnir í undankeppni HM 2014 í Suður-Ameríku fóru fram í gærkvöldi og nótt. Brasilíumenn taka þó vitanlega ekki þátt í undankeppninni enda verða þeir gestgjafar þegar að úrslitakeppnin fer fram eftir tæp þrjú ár.

Öll liðin í Suður-Ameríku eru saman í einum riðli í undankeppninni og komast fjögur efstu liðin áfram upp úr undankeppninni. Liðið í fimmta sæti fer í umspil við liðið sem varð í fimmta sæti undankeppninnar í Asíu um eitt laust sæti í Brasilíu.

Brasilía lék vináttulandsleik gegn Kostaríku í nótt og tryggði Neymar Brössum 1-0 sigur í leiknum.

Tvö stærstu liðin í undankeppninni, Argentína og Úrúgvæ, fóru bæði vel af stað en auk þeirra unnu Ekvador og Perú sínar viðureignir.

Argentína vann Síle, 4-1, þar sem að Gonzalo Higuain, leikmaður Real Mardid, skoraði þrennu. Lionel Messi var líka á skotskónum og kom sínum mönnum í 2-0 í leiknum.

Luis Suarez hjá Liverpool kom sínum mönnum í Úrúgvæ á bragðið gegn Bólivíu með marki á fjórðu minútu. Edinson Cavani skoraði einnig og Diego Lugano skoraði hin tvö mörk Úrúgvæ, sem vann Bólivíu, 4-2.

Næstu fjórir leikir fara fram á þriðjudaginn og aðfaranótt miðvikudags.

Úrslitin:

Úrúgvæ - Bólivía 4-2

Ekvador - Venesúela 2-0

Argentína - Síle 4-1

Perú - Paragvæ 2-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×