Fótbolti

Svartfellingar og Svíar öruggir með sæti í umspilinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Svartfellingar fögnuðu gríðarlega eftir jafnteflið við England í gær.
Svartfellingar fögnuðu gríðarlega eftir jafnteflið við England í gær. Nordic Photos / Getty Images
Næstsíðasta umferð undankeppni EM 2012 fór fram í gærkvöldi og eru nú fimm lið örugg áfram upp úr undankeppninni eftir að hafa tryggt sér sigur í sínum riðlum - Þýskaland, Spánn, Ítalía, Holland og England.

Þar að auki tryggðu Svíar og Svartfellingar sér sæti í umspilinu í næsta mánuði en þá munu átta lið keppast um fjögur laus sæti í úrslitakeppninni í Póllandi og Úkraínu á næsta ári.

Alls eru níu riðlar í undankeppninni og komast sigurvegarar riðlanna beint áfram ásamt því liði sem bestum árangri nær af þeim liðum sem lentu í öðru sæti sinna riðla. Hin átta liðin fara í áðurnefnt umspil.

Það ríkir mikil spenna í þeirri baráttu en eins og málin eru nú standa Danir best að vígi, með sextán stig í H-riðlinum. Danmörk og Portúgal mætast á þriðjudaginn í lokaumferðinni í hreinum úrslitaleik um efsta sæti riðilsins. Portúgal dugar jafntefli til sigurs í riðlinum en Dönum gæti einnig dugað jafntefli með hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum.

Á eftir Dönum standa Svíar best að vígi í baráttu liðanna sem eru í öðru sæti riðlanna en þeir eiga erfiðan leik gegn Hollandi í lokaumferðinni. Hollendingar eru að vísu búnir að tryggja sér sigur í riðlinum en eru enn með 100 prósent árangur í undankeppninni.

Það er ljóst að spennan verður mikil á mörgum vígstöðum á þriðjudaginn, þegar að lokaumferð undankeppninnar fyrir EM 2012 fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×