Fótbolti

Bento: Sanngjarn sigur en neikvæður varnarleikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bento ræðir við Cristiano Ronaldo í gær.
Bento ræðir við Cristiano Ronaldo í gær. Nordic Photos / AFP
Paulo Bento, landsliðsþjálfari Portúgals, segir að sigur sinna manna á Íslendingum í gær hafi verið sanngjarn en að það hafi verið neikvætt og óþægilegt að Ísland hafi skorað þrjú mörk í leiknum.

Leiknum leik með 5-3 sigri Portúgals sem var með 3-0 forystu að loknum fyrri hálfleiknum. Hallgrímur Jónasson minnkaði muninn í 3-2 með tveimur mörkum í síðari hálfleik og kom þar með heimamönnum úr jafnvægi í nokkrar mínútur.

Portúgalar gerðu svo út um leikinn með tvö mörk undir lok leiksins áður en Gylfi Þór Sigurðsson minnkaði aftur muninn með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

„Þegar leikurinn er skoðaður frá upphafi til enda þá er ekki nokkur spurning að við vorum sterkari aðilinn í leiknum. Við stýrðum leiknum og fengum fleiri tækifæri,“ sagði Bento í samtali við fjölmiðla eftir leikinn í gær.

„Það er satt að við vorum ekki jafn stöðugir í vörninni í kvöld og í síðustu leikjum. Það er alltaf óþægilegt og neikvætt að fá þrjú mörk á sig á heimavelli, sérstaklega í leik sem hefði mátt klára í fyrri hálfleik.“

Portúgal og Danmörk eru nú bæði með 16 stig í efsta sæti H-riðils og mætast í Kaupmannahöfn í lokaumferðinni á þriðjudaginn. Portúgal dugar jafntefli til að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM næsta sumar.

„Við viljum ná efsta sætinu og vinna okkar sjötta leik í riðlinum,“ sagði Bento. „Við munum ekki spila upp á jafntefli þó svo að eitt stig dugi en nú fáum við nokkra daga til að laga mistökin sem voru gerð í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×