Enski boltinn

Mancini: Ekkert félag hefur efni á Carlos Tevez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, veit það vel að Carlos Tevez vill fara frá félaginu en hann ætlar ekki að selja hann á einhverju útsöluverði. Tevez er enn hjá félaginu og spilar kannski fyrsta leikinn sinn á tímabilinu þegar City heimsækir Bolton Wanderers á morgun.

„Ég held að það verði ekki vandamál þótt að hann spili áfram með okkur. Hann er fagmaður og þekkir reglurnar. Tevez veit að hann má fara frá félaginu en eins og er bara ekkert félag sem hefur efni á honum," sagði Roberto Mancini.

„Ég ber virðingu fyrir hans lífi og ástæðunum fyrir því að hann vill fara. Það eru enn tíu dagar þar til að glugginn lokar en ef að það kemur ekki gott tilboð í hann á þeim tíma, þá verður hann áfram hjá okkur," sagði Mancini.

Mancini vonast til þess að landi Tevez, Sergio Aguero, skori tuttugu mörk fyrir félagið á tímabilinu en Aguero kom inn á sem varamaður á móti Swansea City og skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik.

„Ég vona að hann verði markakóngur í ensku úrvalsdeildinni. Við höfum þegar einn leikmann í Carlos Tevez sem getur skorað 20 mörk og það væri frábært að fá annan slíkan leikmann," sagði Mancini en það mátti heyra á honum að hvorki Carlos Tevez né Sergio Aguero verði í byrjunarliðinu á móti Bolton á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×