Enski boltinn

Grétar Rafn: Aguero hefur þetta extra sem allir elska að horfa á

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Grétar Rafn Steinsson verður í sviðsljósinu í dag þegar Bolton tekur á móti Manchester City. Enska blaðið The Sun spurði íslenska bakvörðinn út í það hvernig honum litist á það að fá að glíma við Argentínumanninn Sergio Aguero.

Sergio Aguero þurfti bara hálftíma til að skora tvö mörk og leggja upp eitt í fyrsta leiknum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

„Við munum reyna að verjast honum eins og lið en við vitum að við þurfum að spila okkar besta bolta. Ef við gefum honum tíma þá mun hann refsa okkur," sagði Grétar Rafn.

„Það þarf ekkert að greina hans leik því hann gerði allt á 30 mínútum á móti Swansea. Hann er góður á boltanum og fer bæði til vinstri og hægri. Hann vill síðan bæði stinga sér inn fyrir varnirnar og koma á móti boltanum," sagði Grétar Rafn.

„Það skiptir því engu máli hvar hann færi plássið því hann er hættulegur allstaðar. Aguero hefur þetta extra sem allir elska að horfa á," sagði Grétar Rafn.

Grétar Rafn minntist líka þess þegar Sergio Aguero fékk að líta rauða spjaldið þegar hann spilaði síðast á heimavelli Bolton en það var í leik með Atletico Madrid í Evrópukeppninni.

„Það skiptir annars ekki máli hvort þeir tefla fram Aguero, Tevez eða einhverjum öðrum. Þeir eru alltaf með ellefu heimsklassa leikmenn inn á vellinum. Nýju leikmennirnir hafa gert gott lið enn betra og þeir munu keppa um titilinn á þessu tímabili," sagði Grétar Rafn.

Leikur Bolton og Manchester City hefst klukkan 15.00 að íslenskum tíma og verður í beinni á Stöð 2 Sport og HD-rásinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×