Fótbolti

Oscar með þrennu þegar Brasilíumenn urðu heimsmeistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Oscar var hetja Brasilíumanna í nótt þegar þeir tryggðu sér Heimsmeistaratitilinn hjá 20 ára landsliðum með því að vinna 3-2 sigur á Portúgal í úrslitaleiknum í Kólumbíu.

Oscar skoraði fyrsta mark leiksins beint úr aukaspyrnu á fimmtu mínútu og tryggði Brasilíu síðan framlengingu með því að jafna leikinn í 2-2 á 78. mínútu. Oscar skoraði síðan sigurmarkið á 111. mínútu þegar hann lyfti boltanum yfir Mika, markvörð Portúgals.

Þetta voru einu mörkin sem Mika fékk á sig í keppninni og jafnframt einu mörkin sem Oscar skoraði í allri keppninni. Alex og Nelson Oliveira skoruðu mörk Portúgala í úrslitaleiknum.

Brasilíumenn fögnuðu þarna sínum fimmta sigri í HM 20 ára en þeir unnu hana einnig 1983, 1985, 1993 og 2003. Argentínumenn eru eina þjóðin sem hefur unnið þennan titil ofar eða sex sinnum.

Henrique, liðsfélagi Oscars, var valinn besti leikmaður keppninnar sem og að vera markakóngur hennar með fimm mörk. Oscar er sóknarmiðjumaður sem spilar með Internacional en Henrique leikur með Sao Paulo. Það má búast við að þeir verði fljótlega komnir í evrópska boltann eftir þessa frábæru frammistöðu.

Mexíkó tryggði sér þriðja sætið á mótinu með því að vinna Frakkland 3-1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×