Fótbolti

Holland í fyrsta sinn á topp styrkleikalista FIFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bert Van Marwijk og Robin van Persie.
Bert Van Marwijk og Robin van Persie. Nordic Photos / AFP
Hollendingar eru nú í efsta sæti styrkleikalista FIFA í fyrsta sinn í sögunni. Þeir græddu á tapi Spánar fyrir Ítalíu í vináttulandsleik liðanna fyrr í mánuðinum.

Holland og Spánn mættust í úrslitaleik HM í Suður-Afríku síðastliðið sumar og báru Spánverjar þá sigur úr býtum í framlengdum leik.

Aðeins sex aðrar þjóðir hafa setið í efsta sæti heimslistans síðan hann kom fyrst út árið 1993 - Argentína, Brasilía, Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Spánn.

Þá er Úrúgvæ komið í fimmta sæti listans og er þar með efsta Suður-Ameríkuþjóðin á listanum. Brasilía er nú í sjötta sæti og Argentína í níunda sæti.

Þjóðverjar eru enn í þriðja sæti listans en Englendingar hoppa upp um tvö sæti og sitja nú í því fjórða. Ítalía er í sjöunda, Portúgal áttunda og Krótía tíunda.

Af liðunum sem Ísland er með í riðli í undankeppni EM 2012 er Noregur í tólfta sæti, Ungverjaland í 45. sæti, Kýpur í 76. sæti auk Portúgals sem er í því áttunda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×