Fótbolti

Eto'o verður hæst launaðasti knattspyrnumaður heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samuel Eto'o.
Samuel Eto'o. Mynd/Nordic Photos/Getty
Samuel Eto'o hefur samkvæmt fréttum frá Rússlandi samþykkt tilboð rússneska liðsins Anzhi Makhachkal sem mun kaupa Kamerúnann á 40 milljónir evra frá ítalska liðinu Inter Milan.

Samuel Eto'o, sem er þrítugur, á aðeins eftir að fara í gegnum læknisskoðun en það var ekki alveg ljóst hversu langur samningur er. Forráðamenn Anzhi vildu víst gera við hann þriggja ára samning en Eto'o var að sækjast eftir fjórum árum.

Daily Mirror heldur því fram að Eto'o muni fá 55 milljónir íslenskra króna í vikulaun en samkvæmt fréttum frá Rússlandi fær hann 15 milljónir evra fyrir hvert tímabil eða tæplega 2,5 milljarða íslenskra króna. Hann verður því væntanlega hæst launaðasti knattspyrnumaður heims eftir að hann krotar nafn sitt á samninginn.

Eto'o var markahæsti leikmaður Inter Milan á síðustu leiktíð en hann hefur verið mjög sigursæll á sínum ferli með bæði Barcelona og Inter. Alls skoraði hann 33 mörk í 67 deildarleikjum með Inter og 108 mörk í 145 deildarleikjum með Barcelona.

Hjá Anzhi hittir fyrir þá Roberto Carlos og Yuri Zhirkov en sá síðarnefndi kom til liðsins frá Chelsea á dögunum. Liðið er sem stendur í 4. sæti rússnesku deildarinnar en það gæti breyst fljótt verði Eto'o á skotskónum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×