Fótbolti

Ajax rústaði Heerenveen - Kolbeinn á skotskónum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hollensku meistararnir í Ajax unnu frábæran sigur, 5-1, gegn Heerenveen í dag á Amsterdam Arena. Það var Íslendingurinn, Kolbeinn Sigþórsson, sem kom heimamönnum yfir í leiknum með fínu marki á 37. mínútu, en hægt er að sjá myndskeið af markinu hér að ofan.

Aðeins tveimur mínútum síðar náði Heereveen að jafna metin, en þar var að verki Bas Dost. Toby Alderweireld, kom heimamönnum aftur yfir rétt á eftir jöfnunarmarkinu, en þrjú mörk voru skoruð í leiknum á fimm mínútna kafla.

Derk Boerrigter skoraði síðan þriðja mark Ajax í byrjun síðari hálfleiks og heimamenn komnir í vænlega stöðu. Fjórða mark heimamanna kom á 74. mínútu þegar Miralem Sulejmani skoraði fínt mark.

Ajax kórónaði síðan frábæran leik á 90. mínútu leiksins, en þá skoraði Gregory van der Wiel fimmta mark liðsins. Ajax hefur unnið báða leiki sína á tímabilinu og er því með sex stig í efsta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×