Fótbolti

Brassar stöðvuðu sigurgöngu spænskra landsliða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Spánar gátu ekki leynt vonbrigðum sínum í leikslok.
Leikmenn Spánar gátu ekki leynt vonbrigðum sínum í leikslok. Mynd/Nordic Photos/Getty
Brasilía vann sigur á Spáni í vítakeppni í átta liða úrslitum HM 20 ára landsliða sem nú stendur yfir í Kólumbíu en þetta var að margra mati hálfgerður úrslitaleikur keppninnar.

Staðan í leiknum var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og liðin skoruðu síðan bæði eitt mark í framlengingunni. Brasilíumenn komust yfir í bæði skiptin. Gabriel, markvörður Brasilíu, varði fyrstu og fjórðu vítaspyrnu Spánverja og Brasilía vann því vítakeppnina 4-2 og tryggði sér sæti í undanúrslitum keppninnar.

Spænsk landslið hafa unnið hvern titilinn á fætur öðrum að undanförnu, A-liðið er bæði Heims- og Evrópumeistari og yngri landsliðin hafa einnig verið dugleg að vinna gull á sínum mótum sem dæmi 21 árs liðið sem varð Evrópumeistari fyrr í sumar. Það má því segja að Brassarnir hafi stöðvað sigurgöngu spænskra landsliða.

Undanúrslitin á mótinu eru klár og fara fram á miðvikudaginn. Brasilía mætir Mexíkó í öðrum leiknum og í hinum leiknum mætast Frakkland og Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×