Enski boltinn

Emmanuel Adebayor á leiðinni í Tottenham? - viðræður í gangi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Adebayor fór á kostum á móti Tottenham í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð.
Emmanuel Adebayor fór á kostum á móti Tottenham í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð. Mynd/Nordic Photos/Getty
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, hefur staðfest það að félagið sé í viðræðum um að fá Emmanuel Adebayor sem er á samningi hjá Manchester City. Adebayor kláraði síðasta tímabil í láni hjá Real Madrid.

Emmanuel Adebayor er 27 ára Tógómaður sem skrifaði fimm ára samning við Manchester City árið 2009 eftir að City keypti hann frá Arsenal fyrir um 25 milljónir punda.

Adebayor skoraði 14 mörk í 25 leikjum á sínu fyrsta tímabili með City en það kom fljótlega í ljós í fyrra að Roberto Mancini ætlaði ekki að nota hann enda búinn að ná í þá Edin Dzeko, Mario Balotelli og Sergio Aguero til liðsins.

Adebayor var lánaður til Real Marid eftir áramót þar sem hann skoraði 5 mörk í 14 deildarleikjum. Það var ekki áhugi hjá Real Madrid að kaupa Adebayor í sumar og þá gaf Mancini það út fyrir tímabilið að hann mætti fara frá félaginu.

Tottenham hefur áhuga á að fá Emmanuel Adebayor til sín en aðalvandamálið er að hann er með 170 þúsund pund í vikulaun eða tæpar 32 milljónir íslenskra króna. Samningaviðræður eru komnar í gang en þær gætu tekið einhvern tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×