Fótbolti

Jan Koller búinn að leggja skóna á hilluna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jan Koller.
Jan Koller. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tékkinn Jan Koller tilkynnti það í dag að hann væri búinn að leggja skóna á hilluna vegna þráðlátra meiðsla. Koller er orðinn 38 ára gamall og hefur spilað í Belgíu, Þýskalandi, Rússlandi og Frakklandi á löngum ferli sem hófst þó ekki fyrr en hann varð orðin 21 árs gamall.

„Ég er búin að fá nóg síðan í apríl. Fyrst var ég slæmur í kálfanum, svo var eittvað vesen á hjartanu og þegar ég byrjaði undirbúningstímabilið þá tognaði ég aftan í læri," sagði Jan Koller.

Jan Koller byrjaði sem markmaður og gerðist ekki atvinnumaður í fótbolta fyrr en hann var orðinn 21 árs. Fram að því starfaði hann sem bifvélavirki. Þegar hann fór að spila með Sparta Prag 1994 var hann orðinn framherji en Koller er 202 sm á hæð.

Jan Koller skoraði 55 mörk í 91 landsleik fyrir Tékka á árunum 1999 til 2009 en margir Íslendingar muna eflaust enn vel eftir því þegar Koller fékk rauða spjaldið á Laugardalsvellinum 1. september 2001 þegar Ísland vann 3-1 sigur á Tékkum í undankeppni HM.

Koller komst fyrst í heimsfréttirnar fyrir frábæra frammistöðu í belgíska boltanum en hann skoraði 43 mörk í 97 leikjum með Lokeren (1996-1999) og 43 mörk í 65 leikjum með Anderlecht (1999-2001).

Koller var líka öflugur með Borussia Dortmund á árunum 2001 til 2006 en hann skoraði þá 59 mörk í 138 leikjum í þýsku úrvalsdeildinni. Koller endaði síðan ferilinn hjá franska b-deildarliðinu Cannes þar sem hann skoraði 16 mörk í 32 leikjum á sínu síðasta tímabili.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×