Enski boltinn

David Ngog á leiðinni frá Liverpool til Bolton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Ngog.
David Ngog. Mynd/Nordic Photos/Getty
David Ngog er á leiðinni til Bolton en félagið mun væntanlega borga Liverpool fjórar milljónir punda fyrir franska framherjann. Þetta kemur fram í The Liverpool Echo.

David Ngog, sem er aðeins 22 ára gamall, á eftir ár af samningi sínum við Liverpool. Hann hefur ekki verið í náðinni hjá Kenny Dalglish og sér ekki fram á það að spila mikið með Liverpool-liðinu

Ngog var í viðræðum við Sunderland í sumar en ekkert varð af því að hann færi þangað þar sem Frakkinn var ekki nógu ánægður með samninginn sem Sunderland bauð honum.

Owen Coyle, stjóri Bolton, vill styrkja liðið sitt með framherja en honum tókst ekki að fá Daniel Sturridge aftur á láni frá Chelsea. Bolton-liðið skoraði engu að síður fjögur mörk í fyrsta leiknum sínum sem var á móti Queens Park Rangers.

Kaup Bolton á David Ngog eru samt ekki tengd hugsanlegum kaupum Liverpool á Gary Cahill frá Bolton en Liverpool hefur mikinn áhuga á hinum 25 ára miðverði sem er metinn á fimmtán milljónir punda.

Liverpool er þar reyndar í harðri samkeppni við Arsenal og Tottenham auk þess sem Bolton-menn eru ekkert á því að selja leikmanninn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×