Enski boltinn

Jenkinson í byrjunarliði Arsenal á móti Liverpool?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger og Carl Jenkinson.
Arsene Wenger og Carl Jenkinson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Meiðsli í varnarlínu Arsenal þýða væntanlega að hinn 19 ára Carl Jenkinson verður í byrjunarliðinu á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Arsene Wenger keypti þennan bakvörð fyrir eina milljón frá Charlton Athletic í sumar en enginn bjóst örugglega við að hann myndi spila strax með aðalliðinu ekki síst þar sem að hann var ekki búinn að spila mikið með aðalliði Charlton.

Kieran Gibbs og Johan Djourou meiddust báðir aftan í læri í Evrópuleiknum á móti Udinese á þriðjudagskvöldið og kvöldið áður meiddist Armand Traoré í varaliðsleik. Engin þessara þriggja leikmanna eru leikfærir á laugardaginn.

Carl Jenkinson kom inn á sem varamaður fyrir Johan Djourou á móti Udinese, lék síðustu 34 mínúturnar og stóð sig vel. Hann myndi hinsvegar fá stórt próf á laugardaginn þegar hann þarf að stoppa hinn sjóðheita Luis Suárez.

Carl Jenkinson er fæddur árið 1992 en hann á finnska móður og breskan föður og er því löglegur með bæði enska og finnska landsliðinu. Jenkinson á að baki leik með 17 ára landsliðið Englendinga og leiki með 19 ára og 21 árs landsliði Finna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×