Enski boltinn

Scholes lofar Sneijder

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wesley Sneijder leikur með Inter á Ítalíu.
Wesley Sneijder leikur með Inter á Ítalíu. Nordic Photos / AFP
Paul Scholes, fyrrum leikmaður Manchester United, segir að Wesley Sneijder sé frábær leikmaður en hann hefur verið sterklega orðaður við félagið að undanförnu.

Scholes starfar nú sem þjálfari hjá United en hann lagði skóna á hilluna eftir síðasta keppnistímabil. Sir Alex Ferguson, stjóri United, á enn eftir að finna eftirmann hans.

„Já, Sneijder er frábær leikmaður,“ sagði Scholes í viðtali við MUTV. „Hann hefur verið frábær með Inter og hollenska landsliðinu síðasta árið eða svo. Það gekk ekki jafn vel hjá honum þegar hann var hjá Real Madrid en hann er leikmaður í hæsta gæðaflokki.“

„Ég er viss um að það séu mörg félög sem hafi áhuga á honum ef hann er til sölu.“

Scholes segir þó að hjá United séu margir ungir og efnilegir leikmenn til að fylla í skarð hans, til dæmis Tom Cleverly, Paul Pogba og Ryan Tunncliffe. „Það voru margir hjá yngri liðum okkar sem stóðu sig mjög vel á síðasta tímabili.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×