Erlent

Anders Breivik sagðist hafa verið einn að verki

Hafsteinn Hauksson skrifar
Anders Behring Breivik hefur játað að bera ábyrgð á bæði sprengjuárásinni í miðborg Oslóar og fjöldamorðunum í Útey. Sífellt fleiri gögn rata upp á yfirborðið sem veita innsýn í sjúkan hugarheim tilræðismannsins.

Norska lögreglan staðfesti í dag að hinn 32 ára gamli Anders Behring Breivik hafi játað á sig voðaverkin.

„Hann hefur viðurkennt að bera ábyrgð á sprengjuárásinni og að hafa myrt fólkið í eynni," sagði Sveinung Sponheim, lögreglustjóra Oslóar, við blaðamenn í dag.

Maðurinn hefur enn ekki gefið neitt upp um ástæður árásanna.

„Hann hefur ekki skýrt ástæðu árásarinnar en yfirheyrslan gengur út á að fá það fram."

Var hann einn að verki?

„Hann segist hafa verið einn að verki en við verðum að staðfesta að hans frásögn sé sönn," sagði lögreglustjórinn.

Engu að síður hrúgast nú upp ýmis gögn sem sýna inn í hugarheim morðingjans. Þeirra á meðal er tólf mínútna langt myndband á vefnum Youtube sem talið er víst að Breivik hafi búið til og sett á netið daginn sem fjöldamorðin voru framin. Þar þar ræðst hann gegn fjölmenningunni í Evrópu og útbreiðslu Íslamstrúar þar. Þá sjást einnig myndir af honum gráum fyrir járnum, í einkennisbúningi norska hersins og í klæðnaði reglubræðra í Frímúrarareglunni.

Lögregla rannsakar einnig 1,500 blaðsíðna langa stefnuyfirlýsingu Breiviks, sem hann birti á vefnum samdægurs árásunum, en þar er hefnd heitið öllum þeim sem hafa svikið Evrópu, eins og það er orðað. Hann er þó talinn hafa afritað hana að stórum hluta frá bandaríska bréfasprengjumanninum Ted Kaczynski.

Verjandi Breivik segir hann tilbúinn til að útskýra voðaverk sín fyrir opnum tjöldum í réttarsal, en hann fer fyrir dómara á morgun þar sem farið verður fram á gæsluvarðhald yfir honum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×