Enski boltinn

Knattspyrnusamband Malasíu biðst afsökunar en þó með fyrirvara

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Benayoun á ferðinni í leiknum umrædda.
Benayoun á ferðinni í leiknum umrædda. Nordic Photos/AFP
Knattspyrnusamband Malasíu hefur beðið enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea afsökunar eftir að hrópað var að Ísraelsmanninum Yossi Benayoun í vináttuleik í síðustu viku. Leikurinn fór fram á þjóðarleikvanginum í Kuala Lumpur í Malasíu og voru forsvarsmenn Chelsea ósáttir við hegðun heimamanna.

„Knattspyrnusamband Malasíu vill koma sterklega á framfæri að við munum ekki líða rasisma af neinni tegund innan knattspyrnuhreyfingarinnar," sagði í yfirlýsingu frá sambandinu.

Islam er langútbreiddasta trúin í Malasíu en 28 milljónir manna búa í landinu. Yossi Benyoun er hins vegar frá Ísrael og er gyðingur.

„Hafi það verið tilfellið (í leik Chelsea) biðjum við Chelsea og leikmanninn afsökunar. Við fyrstu skoðun, hafi kynþáttafordómar átt sér stað, átti aðeins fámennur hópur áhorfenda í hlut sem lýsir á engan hátt hegðun meirihluta áhorfenda í landi okkar sem elskar knattspyrnu," sagði ennfremur í yfirlýsingunni.

Chelsea kvartaði ekki að leik loknum á föstudag en sendi svo yfirlýsingu á miðvikudag. Þar kom fram að rasismi líkt og sá sem átti sér stað gagnvart Yossi Benayoun ætti ekki heima á knattspyrnuvellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×