Íslenski boltinn

Leikur Fylkis og KR fór fram klukkan 20 að ósk Fylkis

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
KR-ingar fóru illa með heimamenn í Árbænum í kvöld
KR-ingar fóru illa með heimamenn í Árbænum í kvöld Mynd/HAG
Margur sparkspekingurinn velti fyrir sér hvers vegna leikur Fylkis og KR í Pepsi-deild karla fór fram klukkan 20 í kvöld en ekki 19:15 eins og venjan er. Birkir Sveinsson mótastjóri KSÍ segir tímasetninguna hafa verið að ósk Fylkismanna.

Að sögn Birkis átti leikurinn upphaflega að fara fram á mánudaginn (í dag). KR-ingar óskuðu hins vegar eftir því að leiknum yrði hliðrað til vegna þátttöku þeirra í Evrópudeildinni. Fylkismenn báðu þá um að leikurinn færi fram klukkan 20 en ekki 19:15 til þess að auka aðsóknina á leikinn. 1840 mættu á leikinn sem er fínasta mæting.

Kvöldleikir í Pepsi-deild karla fara almennt fram klukkan 19:15 en er stundum frestað til klukkan 20 vegna sjónvarpsútsendinga. Það er einmitt tilfellið í kvöld þegar Valur tekur á móti Stjörnunni í sjónvarpsleik kvöldsins á Stöð 2 Sport.

Eyjamenn voru allt annað en sáttir við að leik liðsins gegn FH sem fram fór í gær hefði ekki verið hægt að fresta um a.m.k. einn dag. Eyjamenn mættu St. Patrick's á Írlandi í Evrópudeildinni á fimmtudagskvöld.

Birkir sagði ástæðuna vera að FH-ingar ættu leik í forkeppni Meistaradeildar í vikunni. Því hefði ekki verið hægt að breyta leikdeginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×