Fótbolti

Riise gæti farið í mál við Lilleström

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bræðurnir John Arne og Björn Helge Riise
Bræðurnir John Arne og Björn Helge Riise Nordic Photos
Norski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu Björn Helge Riise hefur krafið fyrrum félag sitt Lilleström um rúmar sex milljónir íslenskra króna. Krafan á uppruna sinn í samningi sem Riise gerði við Lilleström þegar hann gekk til liðs við félagið árið 2005.

Riise gekk til liðs við Fulham árið 2009 en greiðslan á umræddri upphæð hefði átt að fara fram þegar gengið var frá félagaskiptunum. Fulham er ekki þátttakandi í deilunni sem er eingöngu á milli Riise og Lilleström.

Verdens Gang greinir frá því að báðir aðilar vilji leysa málin utan réttarsalarins.

Riise var í láni hjá Sheffield United á síðustu leiktíð en er kominn aftur til London. Hann spilaði með liðinu gegn Runavik í Evrópudeildinni í síðustu viku. Útlit er fyrir að hann fái fleiri tækifæri undir stjórn Hollendingsins Martin Jol en hann fékk á meðan Mark Hughes réð ríkjum á Craven Cottage.

Breskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að Fulham hafi áhuga á að klófesta eldri bróðurinn John Arne Riise. Hann á eitt ár eftir af samningi sínum við Roma á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×