Fótbolti

Aron Einar sterklega orðaður við Cardiff

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron Einar spilaði frábærlega með íslenska U21 landsliðinu á EM í Danmörku
Aron Einar spilaði frábærlega með íslenska U21 landsliðinu á EM í Danmörku Mynd/Anton
Íslenski landsliðsmaðurinn Aron Einar Gunnarsson gæti verið á leið til Cardiff City ef marka má velska fjölmiðla. Walesonline heldur því fram að Aron Einar gæti skrifað undir við nýtt félag innan 48 klukkustunda.

„Það eru mörg félög á höttunum eftir Aroni og Cardiff City er eitt þeirra," sagði Jerry de Koning umboðsmaður Arons Einars við velska fjölmiðilinn í morgun.

„Það hefur ekki verið gengið frá neinu en þetta ætti að verða klárt eftir 24-48 tíma. Það sem mest liggur á að ganga frá eru bótagreiðslur til Coventry," bætti de Koning við.

Coventry á rétt á bótagreiðslum vegna þess að Aron Einar hefur verið á mála hjá félaginu í þrjú ár og hefur ekki náð 24 ára aldri. Raunar er Aron Einar 22 ára.

„Coventry bauð Aroni nýjan samning en okkur fannst hann ekki nógu góður fyrir Aron," sagði de Koning. Auk Arons Einars hefur Grétar Rafn Steinsson verið á mála hjá hollenska umboðsmanninum.

„Mörg stórlið í stórum deildum hafa sýnt honum áhuga. Fullt af félögum í Chamionship-deildinni og eitt eða tvö í ensku úrvalsdeildinni. Auk þess félög í Þýskalandi og Hollandi. Við höfum verið að velta möguleikunum fyrir okkur," sagði de Koning.

Aron Einar lék yfir 100 leiki á sínum tíma með Coventry og var meðal annars valinn besti leikmaður tímabilsins af stuðningsmönnunum vorið 2009. Hann hefur leikið 23 landsleiki fyrir Íslands hönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×