Fótbolti

Hvíta-Rússland á Ólympíuleikana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. Mynd/AP
U-21 lið Hvíta-Rússlands tryggði sér í dag þriðja sætið á EM í Danmörku með 1-0 sigur á Tékkum í bronsleiknum. Það þýðir að Hvít-Rússar keppa á Ólympíuleikunum í Lundúnum á næsta ári, ásamt Spáni og Sviss sem mætast í úrslitaleiknum í kvöld.

Eftir nokkuð tíðindalítinn fyrri hálfleik þar sem Tékkar voru kannski aðeins sterkari aðilinn tóku Hvít-Rússar öll völd í síðari hálfleik og sköpuðu sér nokkur hættuleg færi í leiknum.

Ekki varð útlitið betra fyrir Tékka þegar að Lukas Vacha fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum, stundarfjórðungi fyrir leikslok, fyrir að handleika knöttinn. Tékkar máttu ekki við því að vera manni færri síðustu mínútur leiksins.

Enda kom það á daginn að sóknarþungi Hvít-Rússa bar árangur. Á 88. mínútu fengu þeir aukaspyrnu sem þeir spiluðu úr á hægri kantinn þar sem Oleg Veretilo gaf fyrirgjöf inn á teig. Þar tók varnarmaðurinn Yegor Filipenko við knettinum og skoraði með viðstöðulausu skoti í teignum.

Þetta reyndist sigurmark leiksins og Hvít-Rússar, sem höfðu ekki unnið leik á mótinu síðan að liðið lagði Íslendinga í fyrstu umferð riðlakeppninnar í Árósum, fögnuðu sætum sigri.

Hvíta-Rússland, Danmörk og Ísland enduðu öll með þrjú stig í A-riðli keppninnar en Hvít-Rússar komust áfram á hagstæðasta markahlutfallinu í innbyrðisviðureignum liðanna. Þeir töpuðu svo fyrir Spánverjum í undanúrslitunum en unnu svo í dag sterkt lið Tékka - sem margir höfðu spáð góðu gengi á mótinu.

Úrslitaleikur Sviss og Spánar hefst klukkan 18.45 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×