Innlent

Óánægja á meðal Eve Online spilara

Úr EVE Online leiknum.
Úr EVE Online leiknum.
Mikil óánægja er meðal þeirra sem spila fjölspilunarleikinn EVE Online, verðmætustu afurð íslenska tölvuleikjafyrirtækisins CCP, en þessi óánægja birtist á spjallborði leiksins á veraldarvefnum, að því er fram kemur í DV.

Í nýrri viðbót við leikinn geta leikmenn notað raunverulega fjármuni til að kaupa sér hluti í leiknum. Að svo stöddu er hægt að kaupa hluti á borð við einglyrni og boli á karaktera, allt hluti sem hafa engin raunveruleg áhrif á framgang leiksins.

Það er tvennt sem hefur vakið upp illindi á meðal spilara í leiknum en það er annars vegar verðið á þessum hlutum og hins vegar hvert fyrirtækið stefnir með þennan sölumarkað. Fyrir stuttu lak nefnilega út innra fréttabréf fyrirtækisins á netið þar sem fyrirtækið virðist stefna að því að setja hluti á borð við betri geimskip og hæfileika innan leiksins til sölu.

Allt hluti sem leikmenn hafa jafnvel tekið langan tíma í að byggja upp en væri þá hægt að kaupa fyrir raunverulegt fé ef af verður. Á fjórða hundrað þúsund leikmanna frá öllum heimshornum spila EVE Online á netinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×