Fótbolti

Pearce: Verður að taka EM U-21 alvarlega

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Pearce á æfingu landsliðsins í Danmörku
Pearce á æfingu landsliðsins í Danmörku Mynd/Getty Images
Stuart Pearce segir að ef Englendingar ætli sér að vinna aftur stórmót í knattspyrnu verði að taka mót eins og Evrópumeistaramót U-21 landsliða alvarlega.

Englendingar hafa aldrei orðið Evrópumeistarar og urðu heimsmeistarar síðast árið 1966. Ávallt eru miklar væntingar gerðar til enska landsliðsins fyrir stórmót en yfirleitt stendur það ekki undir þeim.

Pearce fær ekki að stilla upp sínu sterkasta liði á mótinu, til að mynda vegna þess að Arsenal-manninum Jack Wilshere var bannað að taka þátt í mótinu. Þá eru þeir Kieran Gibbs, Andy Carroll og Micah Richards meiddir.

„Ég hef fengið upplýsingar um hversu margir leikmenn á mótinu hafa spilað með sínum A-landsliðum og við Englendingar eru líklega með fæsta slíka leikmenn í okkar liði,“ sagði Pearce við enska fjölmiðla.

„Við þurfum að passa upp á að þegar svona mót eru annars vegar að við fáum að njóta krafta okkar sterkustu leikmanna.“

„Það má læra mikið af svona mótum. Bikarskápurinn okkar er tómur en sjáið hvað Spánverjar hafa gert með sína leikmenn. Bojan Krkic er til að mynda að taka þátt í sínu öðru U-21 móti.“

„Fótbolti á bara að snúast um að spila fótbolta og ég get ekki séð hvenær það sé ekki viðeigandi að spila með landsliðinu þegar maður hefur á annað borð möguleika á því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×