Fótbolti

Xhaka: Viljum verða Evrópumeistarar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Xhaka í baráttu við John Terry á Wembley
Xhaka í baráttu við John Terry á Wembley Mynd/Getty Images
Svisslendingurinn Granit Xhaka er aðeins átján ára en verður sjálfsagt lykilmaður með landsliði Sviss á EM U-21 liða í Danmörku.

Ísland og Sviss eru saman í riðli og mætast í Álaborg í næstu viku. Xhaka er sigurviss og ætlar liðinu gott gengi í Danmörku.'

„Ég hef þegar orðið heimsmeistari með U-17 liðinu, af hverju ættum við ekki að verða Evrópumeistarar nú,“ sagði hann við svissneska fjölmiðla.

U-17 ára lið Sviss varð heimsmeistari fyrir aðeins tveimur árum síðan og Xhaka, sem ætti í raun að spila með U-19 liði Sviss, segir að þá hafi leikmennirnir sýnt hvað þeir geta.

„Okkur verða allir vegir færir ef við vinnum saman. Við getum aðeins tapað fyrir okkur sjálfum.“

Xhaka spilaði með A-liði Sviss í 2-2 leiknum gegn Englandi um Wembley um síðustu helgi og er ásamt Xherdan Shaqiri talinn einn allra efnilegasti leikmaður Sviss.

Xhaka leikur með Basel í heimalandinu og þjálfari U-21 landsliðsins, Pierluigi Tami, hefur mikla trú á honum.

„Hann hefur náð ótrúlegum framförum en getur orðið enn betri,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×