Fótbolti

Gylfi Þór: Er að spila langt undir getu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson segist fyrst og fremst vera ósáttur við sjálfan sig og hvernig hann hafi spilað í þessum fyrstu tveimur leikjum Íslands á EM U-21 í Danmörku til þessa.

Ísland tapaði í kvöld fyrir Sviss, 2-0, og er án stiga með markatöluna 0-4 þegar ein umferð er eftir af riðlakeppninni. Gylfi segir erfitt að meta hvort það hafi verið erfiðara að kyngja tapinu í kvöld en þegar Ísland tapaði fyrir Hvíta-Rússlandi um helgina.

„Það er erfitt að segja hvort var verra," sagði Gylfi. „Við erum dottnir út úr keppninni núna og voru Svisslendingar með miklu betra lið en Hvít-Rússar. Í þeim leik áttum við miklu meiri séns en í kvöld."

„Það var erfitt hvernig leikurinn þróaðist, þá sérstaklega að lenda 1-0 undir eftir eina mínútu. Þá er orðið erfitt að snúa þessu við og við vorum langt frá því að komast í takt við leikinn. Þeir spiluðu vel, héldu boltanum lengi en við vorum ekki að skapa okkur neitt þegar við fengum boltann. Við komum okkur í raun bara í vandræði og er það eitthvað sem við verðum að bæta."

Gylfi segir að það hafi verið sér erfitt að hann hafi ekki náð sér á strik í þessum tveimur leikjum í Danmörku.

„Persónulega hefur þetta verið mjög erfitt fyrir mig. Ég var að spila langt undir getu bæði í þessum leik og í þeim síðasta. Ég er því aðallega ósáttur út í sjálfan mig hvernig ég hef verið að spila í þessum tveimur leikjum. Ég á að spila betur en ég hef verið að sýna og ég skulda liðinu mikið," sagði Gylfi.

„Ég vona að við náum að rífa okkur upp eftir þennan leik og borga til baka öllum þeim sem hafa flogið hingað yfir og eru að gista hér til að fylgjast með okkur. Áhorfendurnir í kvöld voru mjög flottir og við strákarnir eru þakklátir þeim fyrir stuðninginn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×