Fótbolti

Eyjólfur: Liðið í áfalli eftir fyrra markið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U-21 liðs Íslands, segir að sínir menn hafi verið lengi að jafna sig á fyrra markinu sem Sviss skoraði í leik liðanna í kvöld. Markið kom eftir tæpa mínútu en Sviss vann á endanum 2-0 sigur.

Ísland tapaði fyrir Hvíta-Rússlandi um helgina og er því án stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar.

„Við fáum á okkur mark strax eftir eina mínútu og liðið var í miklu áfalli eftir það og náði sér engan veginn á strik. Það er áhyggjuefni fyrir okkur eftir þessa tvo leiki að í bæði skiptin sem við verðum fyrir áfalli þá komum við ekki til baka. Við náum ekki að stjórna leiknum eins og við ætluðum okkur og það þurfum við að bæta," sagði Eyjólfur við Vísi eftir leikinn.

„Í seinni hálfleik var þetta mun betra hjá okkur. Þá breyttum við til og fórum í 4-4-2. Við höfðum ekki verið að spila okkur í gegnum miðjuna hjá þeim og því breyttum við til með því að setja fleiri lengri bolta upp og þrýsta á eftir. Það var mun betra og þeir sýndu líka allt annað hugarfar. Þeir voru mun áræðnari."

Eyjólfur segir að það hafi verið erfitt að fylgjast með því hvað lítið hefur fallið fyrir íslenska liðið í keppninni til þessa.

„Bjargað á línu, fáum ekki hendi, rautt spjald, rangstöðumark. Við þurfum að sækja þessa heppni og vera ákveðnari. Þá kemur heppnin til okkar aftur. Nú gildir að sigra Dani sem við höfum ekki oft gert en það verður mjög erfitt verkefni og spennandi. Ég held að strákarnir alveg örugglega æstir í að nota síðasta leikinn til að sýna sitt rétta andlit."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×