Fótbolti

Eyjólfur stendur við liðsvalið sitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eyjólfur Sverrisson stendur við þær ákvarðanir sem hann tók fyrir tapleikinn gegn Sviss í gærkvöldi. Liðið var langt frá sínu besta í leiknum og yfirburðir Svisslendinga lengst af algerir. Þeir unnu leikinn að lokum, 2-0.

„Við vorum ekki á tánum í leiknum og það sáum við fljótlega. Menn voru hálf taugaveiklaðir og menn að missa boltann frá sér í einföldum snertingum. En ég er búinn að kíkja á leikinn og sá að það voru kaflar þar sem við spiluðum vel og vorum að útfæra sóknir okkar ágætlega. Við fengum eitt dauðafæri í fyrri hálfleik en svo dettum við niður aftur í hræðslu og óöryggi. Það er eitthvað sem við höfum ekki þurft að glíma við áður,“ sagði Eyjólfur en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Seinni hálfleikur var mjög góður og mikli meiri kraftur og vilji í liðinu. Við höfum hins vegar ekki að sýna það í 90 mínútur, heldur bara af og til í þessum leikjum. Við þurfum að vera stöðugir, þá sérstaklega í okkar sóknaraðgerðum.“

Hann segist hafa velt fyrir sér hvort hann hafi valið rétta menn til að spila þennan leik.

„Já, maður fer alltaf í gegnum það og skoðar hvað hefði mátt gera öðruvísi. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni en maður verður að velja og ákveða eina útfærslu. Svo stendur maður með henni og ég tel að hún hafi verið rétt.“

Næsti leikur Íslands verður gegn Danmörku á laugardaginn og segir Eyjólfur að liðið ætli sér, eins og alltaf, að spila til sigurs.

„Við þurfum að vinna minnst 3-0 til að komast áfram. Við þurfum því að sækja og vera ákveðnir fram á við. En Danir þurfa líka að vinna því þeir geta ekki leyft sér að treysta því að Svisslendingar klári sitt. Þetta verður því örugglega hörku sóknarbolti hjá báðum liðum. Það verður örugglega fullur völlur af áhorfendum og vona ég að það dugi til þess að strákarnir nái loksins að sýna sitt rétta andlit í 90 mínútur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×