Fótbolti

Jóhann Berg: Öxlin að koma til

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður U-21 landsliðs Íslands, segir að hann sé óðum að jafna sig á meiðslunum sem hann varð fyrir í leiknum gegn Hvít-Rússum um síðustu helgi.

Jóhann Berg meiddist á öxl í leiknum og varð að fara af velli í fyrri hálfleik. Hann missti svo af leiknum gegn Sviss á þriðjudaginn en Ísland tapaði báðum leikjum, 2-0.

„Ég er allur að koma til. Öxlin er að verða betri og þetta er allt að koma. Ég tognaði í liðböndunum sem var mjög sársaukafullt og fæ ég enn verk við að lyfta öxlinni,“ sagði Jóhann en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan. „En þetta er allt að koma til.“

Hann bindur enn vonir við að geta spilað gegn Dönum á laugardaginn en það gæti orðið síðasti leikur Íslands á Evrópumeistaramótinu í Danmörku.

„Ég verð að vera teipaður til að geta farið í samstuð við aðra leikmenn. Ég vona auðvitað að ég geti spilað - það eru tveir dagar í leik og öxlin verður betri með hverjum deginum.“

„Það var mjög svekkjandi að missa af síðasta leik og er ég aðeins búinn að spila 30 mínútur á þessu móti. Það er ekki það sem ég ætlaði mér en svona er fótboltinn bara, maður getur ekkert að þessu gert.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×