Fótbolti

Gylfi: Alltaf hægt að vera vitur eftir á

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður U-21 liðs Íslands, gefur lítið fyrir gagnrýni um að liðið hafi ekki verið nægilega vel undirbúið fyrir EM í Danmörku.

Ísland hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum á EM og á veika von um að komast áfram í undanúrslitin. Liðið fékk aðeins fáeina daga til að undirbúa sig fyrir mótið og eftir að lokahópurinn var valinn gat liðið ekki æft fyrr en tveimur dögum fyrir fyrsta leik.

Gylfi segir að vonbrigðin á mótinu hafi verið mikil en að leikmennirnir séu allir að koma til.

„Við eigum enn mjög litla vona og ég held að það séu allir í fínum gír fyrir leikinn gegn Danmörku um helgina. Við ætlum okkur alla vega að skora og reyna að fá einhver stig áður en við förum heim,“ sagði Gylfi en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Þetta er síðasti séns til að snúa gengi okkar við og sýna hvað býr í liðinu. Mér finnst að liðið hafi í heild sinni spilað langt undir getu og eigum við mikið inni.“

Um gagnrýnina segir Gylfi að það hefði mátt litlu muna að mótið hefði þróast á allt annan hátt fyrir íslenska liðið.

„Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á. Ef við höfum nýtt færin okkar gegn Hvíta-Rússlandi og unnið þann leik þá hefði þetta litið allt öðruvísi út. En það gerðist ekki og þurfum við bara að æfa nógu mikið fyrir leikinn gegn Danmörku til að vera tilbúnir í þann leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×