Fótbolti

Aron Einar: Danir með tvo ása á hendi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Aron Einar Gunnarsson verður væntanlega aftur í byrjunarliði Íslands á morgun þegar að liðið mætir Danmörku á EM U-21 liða. Aron Einar tók út leikbann í síðasta leik og hefur því beðið spenntur fyrir leiknum á morgun.

„Ég fæ að taka þátt í þessu aftur eftir að hafa horft á leikinn gegn Sviss upp í stúku auk þess sem ég fékk ekki að fara inn í búningsklefann, hvorki fyrir né eftir leik," sagði Aron Einar en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Ég er klár í slaginn og með ferska fætur. Tilhlökkunin er mikil og munum vonandi ná að sigra Danina loksins."

„Við megum samt ekki ana út í neitt því ef við förum út í eitthvað sem við ráðum ekki við verðum við rassskelltir. Vonandi spilum við eins og við getum best því við erum góðir í fótbolta. Ef okkur tekst að skora strax í fyrri hálfleik geri ég ráð fyrir því að þeir fari að sækja meira og þá opnast kannski leikurinn meira."

Aron reiknar með því að Danir muni stíga varlega til jarðar í þessum leik. „Þeir eru með tvo ása á hendi og við þurfum bara að sjá til hvernig þetta þróast. Við þurfum alla vega að setja mark á þá í fyrri hálfleik."

„Þetta verður erfitt og við vitum að Danir eru með sterkt lið. Vonandi verður þetta skemmtilegur leikur og sama hvernig þetta endar vona ég að við náum að spila okkar leik og náum að rífa okkur upp."

Aron segir að það hafi gengið vel að byggja aftur upp stemningu í íslenska landsliðshópnum eftir að liðið tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum í mótinu.

„Þetta er fínn hópur og við erum flottir saman. Það verður æfing í dag og vonandi verður smá fútt og æsingur í henni. Ég hef engar áhyggjur að okkur takist ekki að gera þjóðina stolta af okkur á morgun - ég vona það alla vega. "




Fleiri fréttir

Sjá meira


×