Fótbolti

Bjarni: Erum búnir að ná áttum aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fyrirliðinn Bjarni Þór Viðarsson á von á heldur rólegri leik gegn Dönum á morgun heldur en leikurinn gegn Svisslendingum var á þriðjudagskvöldið.

Ísland hefur tapað sínum fyrstu tveimur leikjum á EM í Danmörku og verður að vinna stórt á morgun til að eiga möguleika á því að komast áfram í undanúrslit keppninnar.

Vonbrigðin hafa þó verið mikil eftir þessa tvo leiki og segir Bjarni að það hafi tekið sinn tíma að rífa upp gleðina í leikmannahópnum á nýjan leik.

„Það hefur gengið ágætlega, sérstaklega seinni partinn í gær og í morgun. Fram að því var þetta frekar erfitt en við erum búnir að ná áttum aftur," sagði Bjarni en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Við erum búnir að skora danska liðið mjög vel og förum við enn betur yfir þá á eftir. Ég á von á aðeins öðruvísi leik en gegn Sviss þar sem að Danir pressa ekki jafn mikið og þeir gerðu. Við fáum því aðeins meiri tíma á boltanum. Danir eru auðvitað með frábært lið en þetta verður kannski aðeins rólegri leikur."

Eyjólfur Sverrisson þjálfari breytti um leikaðferð í síðasta leik og setti annan sóknarmann í liðið. Björn Bergmann Sigurðarson kom inn á í hálfleik og stóð sig vel. Bjarni á þó von á að Eyjólfur muni aftur stilla upp í 4-3-3.

„Ég veit það auðvitað ekki en mér þætti það líklegast. Leikurinn mun ekki vinnast á fyrsta korterinu og þurfum við að sýna smá þolinmæði. Aftur á móti þurfum við að mæta tilbúnir í leikinn, ólíkt því sem gerðist gegn Sviss."

Bjarni neitar því ekki að íslenska liðið þurfi að setja meiri þunga í sóknarleikinn.

„Við þurfum að skora mörk og helst mörg mörk. Við munum fara betur yfir þann þátt leiksins í dag og fram að leik á morgun en við erum samt staðráðnir í því að skora mörg mörk. Markmiðið er enn að komast áfram og er sá möguleiki enn fyrir hendi. Við verðum bara að vera jákvæðir, sýna þolinmæði og mæta grimmir til leiks. Þá er allt hægt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×