Fótbolti

Jóhann Berg: Förum ekki til Íslands nema við skorum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson segir að hann sé orðinn leikfær og geti spilað með íslenska U-21 liðinu gegn Danmörku í lokaumferð riðlakeppni Evrópumeistaramótsins á morgun.

Jóhann Berg var tekinn meiddur af velli í fyrri hálfleik gegn Hvíta-Rússlandi um síðustu helgi og missti af þeim sökum af leiknum gegn Sviss á þriðjudagskvöldið. Hann meiddist á öxl en er allur að koma til.

„Auðvitað voru þetta erfið meiðsli og hefur öxlin ekki verið nógu góð en þetta er allt að koma til. Ég get spilað á morgun - við æfðum í gær og tókum létt spil. Ég gat farið í öll návígi án nokkurra vandkvæða og get ég því spilað á morgun," sagði Jóhann Berg en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Ég er bara búinn að spila í 30 mínútur á þessu móti og það finnst mér ansi dapurt. En það eru minnst 90 mínútur eftir og vonandi spila ég þær."

Hann á von á því að þurfa að hlaupa mikið á morgun ef hann spilar á kantinum, rétt eins og í fyrsta leiknum. „Danir eru sókndjarfir og því verða mikil hlaup í leiknum. Hægri bakvörðurinn þeirra er reyndar ekki jafn sókndjarfur og sá vinstri en auðvitað verða einhver hlaup og ég verð örugglega búinn á því eftir þessar 90 mínútur. Það er auðtað af hinu góða enda markmiðið að gefa allt í leikinn."

Ísland hefur enn ekki skorað mark á mótinu og úr því vill Jóhann Berg bæta. „Við förum ekki heim til Íslands nema við skorum - það er bara þannig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×