Fótbolti

Danir úr leik ef þeir tapa fyrir Íslandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Danir unnu 2-1 sigur á Hvít-Rússum en töpuðu fyrir Svisslendingum.
Danir unnu 2-1 sigur á Hvít-Rússum en töpuðu fyrir Svisslendingum. Nordic Photos / AFP
Danir munu fylgjast vel með báðum leikjum í lokaumferð EM U-21 liða á morgun því úrslitin í báðum leikjum gætu haft mikið að segja. Danir eru úr leik ef liðið tapar fyrir Íslandi en sigur er þýðingarlaus ef úrslitin í leik Hvíta-Rússlands og Sviss eru þeim óhagstæð.

Ef Danmörk, Hvíta-Rússland og Ísland enda öll með þrjú stig skiptir engu hvernig leikurinn í Álaborg fer á morgun - Danmörk yrði alltaf undir í árangri liðanna í innbyrðisleikjum. Hvíta-Rússland kæmist áfram nema að Ísland myndi skora minnst fjögur mörk og vinna með minnst þriggja marka mun.

Danir verða að treysta á að þeir nái ekki verri úrslitum en Hvíta-Rússlandi í lokaumferðinni. Ef bæði lið gera jafntefli komast Danir áfram. Ef bæði lið vinna verða Danmörk, Hvíta-Rússland og Sviss öll með sex stig og þarf þá að skoða innbyrðisárangur þeirra liða. Danir komst ekki áfram nema að úrslitin í leik Sviss og Hvíta-Rússlands verða þeim hagstæð, eins og lesa má nánar um hér fyrir neðan.

Íslendingar eiga enn möguleika á að komast áfram en þarf að vinna sinn leik með því að skora minnst fjögur mörk og vinna með minnst þriggja marka mun - auk þess að treysta á að Svisslendingar vinni Hvít-Rússa.

Möguleikarnir:

Möguleikarnir fyrir Dani:

Tap gegn Íslandi:

- Danmörk er úr leik.

Jafntefli gegn Íslandi:

- Danir komast áfram ef Sviss tapar ekki fyrir Hvíta-Rússlandi.

Sigur gegn Íslandi:

- Danir komast áfram ef Sviss tapar ekki fyrir Hvíta-Rússlandi eða

- Danir komast áfram ef Hvíta-Rússlandi vinnur Sviss, annað hvort 1-0 eða með minnst tveggja marka mun.*



Möguleikarnir fyrir Hvít-Rússa:

Sigur gegn Sviss:

- Hvíta-Rússland kemst áfram.*

Jafntefli gegn Sviss:

- Hvíta-Rússland kemst áfram ef Ísland vinnur Danmörku.

Tap gegn Sviss:

- Hvíta-Rússland kemst áfram ef Ísland vinnur Danmörku, 3-0 eða með eins eða tveggja marka mun.



Möguleikarnir fyrir Sviss:

Sigur gegn Hvíta-Rússlandi:

- Sviss kemst áfram

Jafntefli gegn Hvíta-Rússlandi:

- Sviss kemst áfram

Tap gegn Hvíta-Rússlandi:

- 1-0 tap fleytir Sviss áfram eða

- Sviss kemst áfram ef Ísland tapar ekki gegn Danmörku



Möguleikarnir fyrir Ísland:

Tap eða jafntefli gegn Danmörku:

- Ísland er úr leik

Sigur gegn Danmörku:

- Sviss verður að vinna Hvíta-Rússland og Ísland verður að vinna með minnst þriggja marka mun. 3-0 sigur dugar þó ekki og verður því Ísland að skora minnst fjögur mörk í leiknum.

* Ef Hvíta-Rússland vinnur Sviss 2-1 og Danir vinna 2-0 sigur á Íslandi verða bæði Hvita-Rússland og Danmörk með nákvæmlega jafnan árangur. Prúðara liðið mun þá komast áfram samkvæmt sérstöku stigakerfi UEFA en ef liðin eru einnig jöfn þar verður dregið um hvort liðið komast í undanúrslit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×