Fótbolti

Rúrik: Trúum enn á okkar möguleika

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Rúrik Gíslason segir að það væri skelfilegt ef Ísland myndi enda með núll stig og ekkert skorað mark á EM U-21 í Danmörku. Strákarnir mæta heimamönnum á morgun og ætla að sýna sitt rétta andlit þá.

„Við erum staðráðnir í að vinna leikinn enda ekkert lið sem okkur langar til að vinna frekar en Danmörku," sagði Rúrik en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Við vitum allir að Danir eru með frábært lið og berum við mikla virðingu fyrir danska liðinu. En við trúum enn á sjálfa okkur og möguleikinn er enn til staðar þó svo að hann sé lítill. En við trúum því að sjálfsögðu að við getum unnið Danina - þá helst stórt og eiga þá möguleika á að komast áfram."

„Danir eru með gott lið og vinna vel hver fyrir annan. Við erum staðráðnir í að sýna okkar rétta andlit og ég tala fyrir hönd allra strákanna þegar ég segi að við séum hungraðir í að gera einmitt það í síðasta leiknum."

Ísland er enn án stiga og hefur ekki skorað mark hér í Danmörku og segir Rúrik að ferð Íslands megi ekki enda á þannig nótum.

„Það væri auðvitað algjört prump. Við munum gera okkar allra, allra besta til að breyta því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×