Fótbolti

Danski landsliðsþjálfarinn: Þurfum að giska á nálgun íslenska liðsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Keld Bordinggaard fagnar með Nicolai Jörgensen, leikmanni danska U-21 liðsins.
Keld Bordinggaard fagnar með Nicolai Jörgensen, leikmanni danska U-21 liðsins. Nordic Photos / AFP
Keld Bordinggaard, þjálfari danska U-21 landsliðsins, segir að hans þjálfarateymi hafi eytt miklum tíma í að hugsa um leikstíl íslenska liðsins.

Ísland og Danmörk mætast á EM U-21 liða í kvöld og þurfa bæði lið að sækja til sigurs. Danir mega alls ekki tapa og þurfa einnig að stóla á hagstæð úrslit í leik Sviss og Hvíta-Rússlands til að komast áfram.

Vísir spurði Bordinggaard á blaðamannafundi danska liðsins í gær hvernig þeir reikna með að íslenska liðið muni spila í kvöld.

„Við höfum reyndar eytt miklum tíma í að velta því fyrir okkur. Svo virðist sem að Ísland spili aðeins á einn veg og hann liggur fram á við. En íslenska liðið getur einnig stjórnað leiknum og verið þolinmóðir eins og við sáum í undankeppninni.“

„Það eina sem við getum gert er að giska á hvernig íslenska liðið mun nálgast leikinn og munum við undirbúa okkur á mismunandi hátt. Okkur hefur gengið vel á að giska á fyrirfram hvernig leikir okkar munu þróast í mótinu og við höfum trú á því að við getum gert það aftur.“

„Leikstíll okkar býður upp á að spila gegn liðum sem nota mismunandi leikaðferðir. Við erum því fullir sjálfstrausts jafnvel þó svo að við þurfum að giska á nálgun íslenska liðsins til leiksins.“

Bordinggaard segir að íslenska liðið hafi verið óheppið á mótinu. „Það eru margir frábærir knattspyrnumenn í liðinu og leikskipulag liðsins er mjög skilvirkt. Það er erfitt að eiga við þessa leikmenn og þeir hlaupa mikið. Íslendingar hafa valdið mörgum erfiðleikum í gegnum tíðina.“

„Þeir hafa verið óheppnis á þessu móti. Þeir stjórnuðu leiknum gegn Hvíta-Rússlandi en fengu svo rautt spjald og víti á sig og töpuðu leiknum. Það geta allir tapað fyrir Sviss - eins og við vitum sjálfir manna best - en ég á von á því að sjá íslenskt lið sem líkist því hvernig það var í undankeppninni. Þetta verður erfiður leikur fyrir okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×