Fótbolti

Jón Guðni: Ótrúlegt að Hvít-Rússar komust áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Jón Guðni Fjóluson, leikmaður íslenska U-21 liðsins, segir að leikmenn geti gengið stoltir frá leiknum við Danmörku í kvöld. Ísland vann leikinn, 3-1, en það dugði ekki til að komast áfram í undanúrslit Evrópumeistaramótsins í Danmörku.

„Mér er efst í huga hvað við vorum nálægt því að komast áfram. Við getum sjálfum okkur kennt um það, sérstaklega hvernig fór fyrir okkur í leiknum gegn Hvíta-Rússlandi," sagði Jón Guðni en niðurstaðan í kvöld að Sviss og Hvíta-Rússland komust í undanúrslit keppninnar. Ísland og Danmörk sitja eftir.

„Nú eru Hvít-Rússar komnir áfram, ótrúlegt en satt. En svona er boltinn. Á svona sterkum mótum verður maður að mæta tilbúinn í hvern einasta leik og hefðum við átt að klára fyrsta leikinn."

Það gekk mikið á í leiknum í kvöld og bæði lið fengu fjölda marktækifæra. Jón Guðni segir að það hafi ekki verið erfitt að halda einbeitingunni.

„Nei, ég held að við höfum verið þolinmóðir og tekið bara eitt mark fyrir í einu. Það gekk líka mjög vel - við skoruðum þrjú en það síðasta datt ekki alveg fyrir okkur. Þetta er skrýtin tilfinning."

„Menn voru svekktir eftir leik en við getum gengið stoltir frá þessum leik og það var fyrsta markmiðið okkar í þessum leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×