Fótbolti

Rúrik: Klaufalegt að vinna ekki Hvít-Rússa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Rúrik Gíslason segir að Ísland megi ekki gleyma því að fagna góðum sigri á Dönum þrátt fyrir að hafa fallið úr leik á Evrópumeistaramóti U-21 liða í Danmörku.

„Þetta er ein skrýtnasta tilfinning sem ég hef upplifað en ég held að það mikilvægasta núna er að fagna þessum sigri í kvöld og hugsa svo um það eftir 2-3 daga hvað hefði mátt fara betur," sagði Rúrik eftir leikinn í kvöld.

„Ef mér skjátlast ekki þá er þetta fyrsta sinn í sögunni sem við vinnum Dani og ég held að við eigum að vera stoltir og ég vona að aðrir séu stoltir líka."

„Það er ótrúlega skrýtið að Hvíta-Rússland sé komið áfram. Við hefðum átt að vinna þann leik. Það er hárfín lína á milli þess hvort við vinnum eða töpum þeim leik. Mér fannst íslenskt mark liggja í loftinu allan leikinn og verður það að skrifast á algeran klaufaskap að við skyldum ekki vinna þann leik."

„Svisslendingar unnu okkur svo sannfærandi, þeir voru kannski bara betra liðið í þeim leik. Svona er þetta í fótboltanum - stundum detta hlutirnir með manni og stundum ekki. Mér fannst ekki allt detta fyrir okkur í dag - við vinnum 3-1 og fengum fullt af sénsum til að vinna stærri sigur. En við lærum af reynslunni."

„Við vorum staðráðnir í því að sýna hvað býr í okkur og ég held að við gerðum það í dag. Ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki alveg allar ákvarðanir dómarans í dag - ég var til dæmis augljóslega hlaupinn 2-3 niður í dag án þess að dæmt væri á það. Þess vegna finnst mér að hlutirnir hafa ekki alveg að vera að detta fyrir okkur en það er oft þannig með þessi minni lið."

„En það hljómar mjög vel að hafa unnið Dani 3-1 og við erum sáttir við það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×