Fótbolti

Bjarni: Aldrei jafn svekktur eftir sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Bjarni Þór Viðarsson, fyrirliði U-21 liðs Íslands, sagði eftir leikinn gegn Dönum í gær að það hafi verið erfitt að kyngja niðurstöðunni og þeirri staðreynd að Ísland væri úr leik á EM í Danmörku.

Ísland vann leikinn, 3-1, en það dugði ekki til á endanum. Ísland hefði annað hvort þurft að halda hreinu eða skora eitt mark til viðbótar til að komast í undanúrslit.

Bjarni var tekinn úr byrjunarliði Íslands í gær og kom ekki við sögu í leiknum.

„Ég held að ég hafi aldrei verið jafn svekktur eftir sigurleik hjá mínu liði eins og nú,“ sagði Bjarni en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan. „Það munaði á endanum bara einu marki sem er afar svekkjandi. Sigurinn var þó frábær.“

„Við skoruðum þrjú mörk í dag og fengum fullt af færum. Það er því þessi leikur sem stendur upp úr eftir keppnina.“

Hann segir að leikaðferð íslenska liðsins hafi gengið upp í leiknum. „Við ætluðum að vera þolinmóðir framan af og sjá hvað þeir myndu gera. Við náðum svo að skora tvö mörk en vorum óheppnir að fá annað á okkur. Við vorum líka óheppnir að skora ekki fleiri.“

Hvíta-Rússland komst í gær áfram í undanúrslit keppninnar, þökk sé sigri Íslands. „Það er frekar svekkjandi því þeir eru að ég tel með slakasta liðið í þessum riðli. Það er kannski erfitt að halda því fram þar sem að þeir unnu okkur en það er líka alveg á hreinu að þeir eru með lakasta liðið af þeim sem við mættum í þessari keppni.“

„Við erum stoltir eftir þennan leik en líka svekktir yfir því að hafa ekki farið áfram. Það munaði einu marki á því að við myndum fara í undanúrslit og er það frekar svekkjandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×