Fótbolti

Eriksen: Vildi frekar fá Ísland áfram

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eriksen fylgist með Jóhanni Berg í Álaborg í gær
Eriksen fylgist með Jóhanni Berg í Álaborg í gær Mynd/Anton
Christian Eriksen, leikmaður danska U-21 landsliðsins, segir það ótrúleg niðurstaða að Hvíta-Rússland hafi komist áfram í undanúrslitin á EM í Danmörku.

Ísland vann í gær 3-1 sigur á Danmörku en sigurinn dugði ekki til að komast áfram. Þá hefði annað hvort 3-0 eða 4-1 sigur þurft til. Hvíta-Rússland tapaði fyrir Sviss, 3-0, í gær en kemst engu að síður áfram á hagstæðu markahlutfalli í innbyrðisviðureignum sínum gegn Danmörku og Íslandi.

„Það er sorglegt að Hvíta-Rússland hafi komist áfram, sérstaklega þar sem við unnum þá. Ég hefði frekar kosið að Ísland hefði komist áfram,“ sagði Eriksen við danska fjölmiðla eftir leikinn í gær.

Hann sagði að leikurinn gegn Íslandi í gær hafi verið dæmigerður fyrir þáttöku danska liðsins í mótinu. „Þannig var þetta í næstum hverjum einasta leik - boltinn vildi bara ekki inn,“ sagði Eriksen en Danir áttu 26 marktilraunir í gær en skoruðu bara eitt mark. Ísland átti sautján en skoruðu þó þrjú mörk.

Bæði lið féllu úr leik á Evrópumeistaramótinu í gær þar sem að Hvíta-Rússland var með besta markahlutfallið í innbyrðisárangri þessara þriggja liða. Hvít-Rússar fylgdu því Svisslendingum, sem unnu alla sína leiki í riðlinum, áfram í undanúrslitin.

„Mér finnst að þeir sem fengu færin og skutu að marki hafi brugðist - þeirra á meðal ég,“ sagði Eriksen sem átti langt í frá sinn besta leik í gær. Hann sýndi þó lipra takta inn á milli.

„Við vildum komast á Ólympíuleikanna og sjálfur var ég mjög spenntur fyrir því. Við áttum möguleika á því en köstuðum honum fyrir borð,“ bætti Eriksen við.

Liðsfélagi hans, Nicolai Boilesen, tók í sama streng. „Það var ekki nógu gott hvað við skoruðum lítið en við verðum líka að skoða varnarleikinn okkar. Íslendingar skoruðu þrjú mörk og það er alls ekki nógu gott. En 26 skot á markið - það segir allt sem segja þarf.“

„Við getum þó engum öðrum kennt um þetta en okkur sjálfum. Við leyfðum þeim að skora þrjú mörk í þessum leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×