Fótbolti

Allar þjóðirnar í B-riðli eiga möguleika

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Scott Sinclair og félagar í enska landsliðinu verða að vinna í kvöld.
Scott Sinclair og félagar í enska landsliðinu verða að vinna í kvöld. Mynd/AP
Það er óhætt að segja að B-riðill á EM U-21 landsliða sé galopinn. Spánverjar og Tékkar standa best að vígi en England og Úkraína geta tryggt sig áfram með sigri í sínum leikjum. Lokaleikir riðilsins fara fram í kvöld.

Englendingar mæta Tékkum í Viborg og Úkraína og Spánn mætast í Herning. Reikningsdæmið er mjög einfalt fyrir England og Úkraínu. Sigur kemur þeim áfram. Allt annað og þjóðirnar eru úr leik.

Spánverjum dugar jafntefli gegn Úkraínu og mega tapa með minna en fjögurra marka mun verði jafntefli í viðureign Englands og Tékklands.

Tékkar tryggja sig áfram með sigri á Englandi en jafntefli yrði líklega nóg. Aðeins sigur Úkraínu á Spánverjum yrði þeim að falli. Vinni Úkraína fjögurra marka sigur á Spánverjum, sem verður að teljast ólíklegt, komast Tékkarnir líka áfram á jafntefli.

Komist Englendingar upp úr sínum riðli er ljóst að hinar þrjár þjóðirnar, sem komast í undanúrslitin, hafa tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum í London 2012.

Leikir dagsins hefjast klukkan 18:45.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×