Fótbolti

Spánverjar og Tékkar komust í undanúrslitin á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Manuel Mata fagnar öðru marka sinna í kvöld.
Juan Manuel Mata fagnar öðru marka sinna í kvöld. Mynd/AP
Riðlakeppni Evrópumóts U21 árs landsliða í Danmörku lauk í kvöld þar sem að Spánn og Tékkland komust upp úr B-riðli og tryggðu sér sæti í undanúrslitunum. Sviss og Hvíta-Rússland tryggðu sér sín sæti í gær á kostnað Íslendinga og Dana.

Spánverjar sýndu styrk sinn með því að vinna öruggan 3-0 sigur á Úkraínumönnum. Juan Manuel Mata, leikmaður Valencia, skoraði tvö mörk (eitt úr víti) og Adrián López, leikmaður Deportivo La Coruna, gerði þriðja markið. Adrián er markahæsti leikmaður keppninnar með þrjú mörk.

Tékkar tryggðu sér 2-1 sigur á Englendingum með því að skora tvö mörk á síðustu mínútum leiksins þegar allt leit út fyrir að enska liðið væri að komast í undanúrslitin.  

Danny Welbeck kom Englendingum yfir með skalla á 76. mínútu eftir fyrirgjöf Daniel Sturridge. Jan Chramosta jafnaði leikinn á 89. mínútu með því að skora af stuttu færi eftir klaufagang í vörn Englendinga og þar með voru Tékkar komnir áfram. Englendingar reyndu að tryggja sér sigurinn í blálokin en Tékkar náðu skyndisókn í uppbótartíma þar sem að Tomas Pekhart skoraði sigurmarkið eftir sendingu frá Chramosta.

Undanúrslitin fara síðan fram á miðvikudaginn og þar mætast Spánn og Hvíta Rússland í fyrri leiknum og Sviss og Tékkland mætast síðan seinna um kvöldið.

Liðin keppa ekki aðeins um Evrópumeistaratitilinn því þrjú efstu komast inn á Ólympíuleikana í London 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×